23 júlí 2009

Tími á smá vinnupásu

Þar sem ég hef nú setið hér án pásu og rýnt í stærðfræðiformúlu, matlab-forritunarkóða og hermikúrvur, þá er kominn tími á að líta aðeins upp úr fræðinni og segja ykkur frá því sem á daga okkar hefur drifið.

Við erum sumsé komin með lífið hérna í Winnipeg í nokkuð fastar skorður. Þrátt fyrir mikla vinnu og stress sem er að hellast yfir mig vegna margra verkefna og lítils tíma, þá höfum við reynt að vera dugleg að ferðast aðeins um og gera skemmtilega hluti saman. Við fórum t.d. til Toronto yfir eina helgi þegar við áttum brúðkaupsafmæli og það var alveg frábært. Ég fór af stað á fimmtudagskvöldi í boði fyrirtækis í Toronto, þar sem ég hafði verið boðin að koma í atvinnuviðtal og heimsókn í fyrirtækið. Viðtalið gekk mjög vel og flutti ég einni smá fyrirlestur um þá vinnu sem ég er að gera í verkefninu mínu. Í vikunni á eftir fékk ég svo staðfestingu á velgengni viðtalsins, þar sem ég fékk tilboð sent frá fyrirtækinu. Óneitanlega mjög spennandi.
Á föstudeginum komu svo drengirnir mínir og gengum við fjögur saman vítt og breytt um borgina. Fórum í safnaleiðangur og stóðum á glergólfi í tæplega 450 metra hæð. Það er nokkuð ljóst að þessi litla fjölskylda á ekki við lofthræðslu að stríða, þar sem varla var hægt að sjá hverjum fannst gólfið meira spennandi – mömmunni eða prinsunum. Þessi helgi var yndileg og áttum við margar góðar stundir saman. Fórum fínt út að borða og létum margt gott eftir okkur.

Undir lok júlí þurfti ég svo að fara í vinnuferð til Calgary, þar sem ég var heila viku í burtu á ráðstefnu og alþjóðlegum vinnugrúppufundi. Það var mjög gaman, þó ég hafi óneitanlega saknað strákanna minna þriggja. Ég skapaði mörg sambönd. Fékk boð um vinnu í Noregi og ræddi við fleiri sem nú einnig hafa boðið mér vinnu. En nú hef ég tvö atvinnutilboð til viðbótar hér í Kanada. Svo þegar mér loksins tekst að ljúka verkefninu ætti varla að vera skortur á atvinnu, þar sem ég er nú með 1 fast tilboð (með launatölu), 3 munnleg tilboð og 2 boð um vinnu víðsvegar um heiminn. Ætli stærsta ákvörðunin á næstu mánuðum verði ekki hvar okkur langar að búa og hvað sé best fyrir drengina okkar. Það mun nú allt koma í ljós. Fyrsta ákvörðun er allavega að fresta öllum ákvörðunum fram á vorið, þar sem öll atvinnutilboð mín miðast við næsta haust og allir eru meira en viljugir að bíða eftir mér í heilt ár eða svo (meðan ég klára doktorinn). Það er bara afskaplega gott að vera þó örugg með vinnu þegar ég lýk náminu, einu áhyggjufarginu af mér létt.


Um verslunarmannahelgina lögðum við svo aftur land undir fót og fórum á Íslendingahátíð í Gimli. Við gistum á frábæru hóteli rétt utan við bæinn. Vorum með stórt herbergi með arin. Baðherbergið okkar var með 2 manna jacuzzi baðkari og stórri sturtu. Svo voru bakdyr á herberginu okkar út í garðinn, sem var við vatnið. En fyrir utan hurðina okkar var bekkur með borði undir tré. Svo á sunnudagskvöldið settum við prinsana í rúmið, höfðum hurðina opna og við hjónakort settumst saman út á bekkinn við vatnið með verðlaunarauðvín og ostabakka, þar sem við spjölluðum saman fram á nótt undir ljúfum tónum frá fína iPodnum mínum :o) Það gerist nú varla betra...


Í gær ákváðum við að nenna ekki að elda mat og fórum í fyrsta skipti (hér í norður ameríku) fyrir strákana á Mc. Donalds. Ég hef nú ekki viljað fara þangað en við ákváðum að gera þetta fyrir drengina og völdum þar að auki stærsta staðinn, hvað leiktæki varðar. Það var nokkuð ljóst að prinsarnir voru ánægðir með þetta uppátæki okkar og skemmtu þeir sér konunglega. Sérstaklega Mánalingurinn okkar sem var snöggur að ná sér í leikfélaga og var alveg í essinu sínu. Hann fór líka algerlega á kostum þegar við komum út af staðnum og hann fór að segja okkur frá leiknum. Hann sagði okkur sko að nú kynni hann sko alveg þessa ensku. Það þyrfti sko enginn að kenna honum hana.


Sko...ef maður dettur, þá segir maður bara heeeeeelp (sagt með miklum hreim). Ef maður er lengi og vill láta bíða þá segir maður Went på me (með mjög sterku tvöföldu vaffi) og ef maður skemmtir sér þá segir maður bara This is fun.


Við foreldrarnir hlógum og hlógum yfir útkýringum frumburðarins, sem augljóslega getur orðið bjargað sér nokkuð vel og er orðinn nægjanlega öruggur til að tala við aðra krakka.


Mummalingur fer líka algerlega á kostum. Hann talar nú enga ensku, en bara þeim mun meiri íslensku. Hann hermir orðið ALLT eftir bróður sínum, svo stundum má nú ofgera. Hann er búinn að taka ástfóstri við hundabangsann sinn (sem hann fékk í skírnargjöf) og má ekkert fara án þess að voffi komi með. Voffi er látinn drekka , borða og spjalla. Þar fyrir utan er hann að kenna voffa að ganga, svo brúðan er orðin frekar mikið skítug. Það þyrfti eiginlega að kaupa skó á bangsa...því það er varla hægt að fá hann lánaðann í rétt örfáar mínútur til að skella honum í þvottavélina. Ætli besta ráðið sé ekki bara að setja hann í bað með örverpinu og reyna að sápuþvo brúðuna þannig :o)


Við erum líka farin að undirbúa haustið örlítið, þar sem frumburðurinn er á leið í stutta skóladvöl á Íslandi. Því var farið í sérstaka ferð í Old Navy þar sem við fjárfestum í skólafatnaði á drenginn. Hann fékk tvennar fínar buxur og nokkur sett af síðerma bolum. Þessu var svo komið fyrir í tösku, þar sem þetta er klárt fyrir fyrsta skóladag. Ég verð að segja, að þó svo þetta sé ekki hans eiginlegi fyrsti skóladagur, þá er þetta samt fyrsti skóladagur í hans lífi og ég sé afskaplega mikið eftir því að ég mun missa af þessum merkisdegi :o( Máninn okkar er nefnilega orðinn afskaplega spenntur og við fórum í gegnum stafabókina eitthvað kvöldið, þar sem í ljós kom að hann þekkir núorðið flesta stafina. Nú vantar bara að hann læri að lesa og skrifa, því reikning kann hann og hefur kunnað síðan hann var 3 ára gamall. Það er nú ekki slæmt fyrir litla ærslabelginn okkar að geta talað 3 tungumál og kunna að lesa og skrifa á einu þeirra og kunna að reikna fyrir 6 ára aldur. Fyrir 7 ára aldur mun hann svo kunna að lesa og skrifa á 2 tungumálum :o)


Hvað varðar persónulegann þroska hans, þá erum við búin að finna sundnámskeið, fótboltaskóla og fimleika fyrir hann til að stunda í vetur í Álaborg og verður farið í að hringja á þessa staði í nótt til að skrá hann (já í nótt, því Danmörk er jú 7 klukkutímum á undan okkur). Svo erum við að vinna í að finna enskunám fyrir hann en það gengur eitthvað hægar, því það er víst ekki mikið svoleiðis í boði fyrir svona unga krakka. Ég hugsa að ég reyni að hafa samband við ameríska sendiráðið í DK til að finna lausn á því vandamáli.


En jæja nú er víst pásan orðin nægjanlega löng. Ég þarf að ná að klára ýmsa hluti áður en ég fer heim til að sækja strákana mína. Því við ætlum á róló. Planið var svo að elda fisk í kvöldmatinn, en þar sem það er 25 stiga hiti úti, þá hugsa ég að ég finni bara picknik og við borðum í Assiniboine garðinum og skreppum kannski í lestarferð :o)
Munið að kíkja inn á heimasíðu prinsanna til að skoða myndir. En þar inni hef ég sett inn fullt af myndum frá júlí og mun bæta við fleiri með kvöldinu.

Yfir og út frá Winnipeg


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá æðislegt. Alveg ótrúlegt hvað þér tekst að gera mikið af skemmtilegum hlutum með verkefninu þínu. En hvernig stendur á að hann sé að fara í skóla í haust, og hvar? Ég skildi það ekki alveg.... Mér líst mjög vel á áhugamálin hjá Gunnari Mána í vetur, Ásgeir hefur bæði æft sund (í bráðum 2 ár) og fimleika (í sumar) og mér líst mjög vel á báðar íþróttirnar, reyndar fá fimleikarnir að víkja fyrir dansinum í vetur en ég er viss um að við tökum upp þráðinn í fimleikunum næsta sumar. Ég mæli sko 100% með sundinu og Ásgeir hefur haft ótrúlega gaman af fimleikunum í sumar.

Bestu kveðjur, Andrea og co.