22 mars 2007

Alltaf nóg að gera

Já helgin framundan er ekkert viðburðarminni en sú síðasta. Veit ekki alveg hvar ég á að koma lærdómnum fyrir í þessu öllu saman, en ef það er einhver tilbúin að lána mér svona eins og þrjá auka tíma á sólarhring þá þigg ég það með þökkum.

Framundan á morgun föstudag er 80's djamm okkar Áladívanna. Ég verð nú að segja að ég er bara orðin frekar spennt. Við fáum að láni Kanalhúsið, sem er samkunduhús á háskólasvæðinu. Hallærisfatakeppni í gangi og af því tilefni ætla ég að vera í stuttu hvítu pilsi, svörtum leggings, einhverjum asnó bol, með hátt hliðartagl og mögulega bláan eða fjólubláan augnskugga. Svo stendur valið á milli legghlífa og bláa strigaskó við eða rautt tásunaglalakk og silfurlitaðir glimmer háhælaðir skór ;o) Íris verður álíka vel til fara, að öllum líkindum í stuttu svörtu pilsi, hvítri bundinni skyrtu og með bindi. Ég þarf að reyna að muna að láta Jóhann taka mynd af okkur áður en við leggjum af stað í strætóferð aldarinnar (það verður sko glápt á okkur). Svo veit ég að Dísa skvísa og Birna klippir ásamt ótal öðrum íslenskum dívum Álaborgar ætla að hafa sig álíka flott til og mæta á svæðið. Semsagt mikil spenna og tilhlökkun fyrir morgundeginum, þegar íslensku herrarnir á svæðinu verða látnir sitja heima og sjá um Álaborgarhlið arfleiðar íslensku þjóðarinnar. Við stúlkurnar munum snæða saman mat með mexíkósku þema og hlýða síðan saman á fyrirlestur sérfræðings um leiktækjaúrval svefnherbergisins. Eitthvað hefur það farið fjöllum hærra hérna um borgina að ónefndar dívur muni ekki fara tómum höndum heim og þar af leiðandi gleðja sinn duglega heimasitjandi barnapíueiginmann. Öllu þessu munum við skola niður með rauðvíni, hvítvíni og bjór, nema ég sem fæ bara gos. Lítill fugl hvíslaði því að mér að Íslendingar hér í borg væru engu skárri en menntaskólakrakkarnir heima og verið væri að skoða vodkasmygl í gosflösku. Þetta eru samt óstaðfestar fréttir og enn óljóst hvort umræddir aðilar gugna og hætta við allt saman :o) Frekari fregnir verða birtar ásamt pínlegum ljósmyndum eftir hátíðahöldin.

Á laugardag erum við litla fjölskyldan búin að skipuleggja skoðunarferð um Álaborg, þar sem við munum nú samt mjög lítið sjá af sjálfri borginni, þar sem ferðamátinn verður strætó og áfangastaðirnir eru bílasölur borgarinnar. Yes, dömur mínar og herrar nú er að koma að því. Við erum búin að ganga frá bílaláni og samningum í sambandi við vexti og fleira og eigum nú bara eftir að finna draumabílinn og fjárfesta í honum. Svo vonandi eftir ekki alltof langan tíma, verðum við komin á mótordrifinn vagn, með 4 hjólum og miklu plássi. Læt ykkur vita hvernig fer með sjóferð þá.

Jæja best að koma sér í einhvern lærdóm svo ég geti aðeins friðað samviskuna yfir helgina.
Adios amigos.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Við verðum sko flottar í kvöld ;). Hver veit nema fatnaðurinn okkar slái í gegn í strætó og við komum af stað tískubylgju hérna í Álaborg, þú með óléttu útgáfuna af tískunni hehehe.

Nafnlaus sagði...

ég myndi mæla með strigaskónum, bara til þess að vera svolítið praktískt miðað við ástandið á þér :P Allavega þegar ég var ólétt þá var maður yfirleitt bara á góðum skóm sem maður gat helst alls ekki dottið á :D
Kv. Andrea.