04 júlí 2009

Ferðasagan til Kanada

Jæja ætli það sé ekki kominn tími til að endurvekja bloggið :o)

Nú er enn eitt ævintýri fjölskyldunnar litlu hafið, þar sem við erum öll stödd saman í Winnipeg, Manitoba, Kanada.

Eftir yndislegan tíma á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina, þá flugum við saman fjögur til Toronto á þriðjudeginum 30. júní. Flugið gekk ofsalega vel og drengirnir voru nokkuð þægir og góðir. Ég hefði viljað láta þá sofa minna fyrr um daginn svo þeir hefðu lagt sig í flugvélinni, en hann Máni minn svaf ekki dúr alla leiðina og Mumminn ekki nema hálftíma. Við lenntum kl. 18:30 að staðartíma, en þá var klukkan orðin 22:30 að íslenskum tíma. Jóhann og strákarnir fóru inn á hótel, fengu sér að borða og svo beina leið í rúmið á meðan ég ferðaðist enn lengra inn í land og var lennt í Winnipeg kl. 23:15 að staðartíma, eða 04:15 að íslenskum tíma (Winnipeg er ekki í sama tímabelti og Toronto). Á flugvellinum í Winnipeg mætti mér hópur af frábæru fólki sem var gagngert komið seint að kvöldi á flugvöllinn til þess að taka á móti mér, og samt sem áður frídagur daginn eftir og flestir úti að skemmta sér þarna á þriðjudagskvöldinu. En þau aðstoðuðu mig með töskur og farangur (ég tók allan farangurinn svo strákarnir þyrftu ekki að hugsa um það daginn eftir), að fá bílaleigubílinn og komu með mér í íbúðina okkar þar sem kveikt var á ljósum og tónlist og búið að setja mat í ísskápinn og eldhússkápa. Þau höfðu komið með leikföng fyrir strákana sem voru komin inn í barnaherbergið. Sem sagt alveg ógleymanleg móttaka og frábært fólk.

Snemma þann 1. júlí fór ég af stað til þess að taka á móti Jóhanni og prinsunum á flugvellinum. Við slöppuðum svo aðeins af áður en við fórum á keyrslustúfa til þess að líta í kringum okkur í bænum. 1. júlí er þjóðhátíðardagur Kanada og er kallaður "Canada day", svo það var mikið um hátíðarhöld um allan bæinn. Við enduðum á mögnuðu svæði sem kallast "The Forks" þar sem allt var fullt af fólki og mikið um að vera. Þessi staður er einskonar útisafn, kallast "The Forks national Historic Site" og er hægt að finna þar t.d. minjar um indíána (sem þeir nota enn í dag fyrir samkomur), Manitoba theatre for young people, The historic rail bridge, Manitoba Children´s museum og fleira og fleira. Við eyddum öllum deginum þarna og nutum hitans, sólarinnar, fólksins og lífsins.

Á fimmtudeginum 2. júlí og föstudegium 3. júlí fór ég svo í vinnuna þar sem mér var ofsalega vel tekið og búið að setja upp fyrir mig vinnusvæði "cubicle". Ekki líkt því sem er í myndunum, því þessi týpa af cubicle lýkist mun meira rúmgóðri skrifstofu og það er ekkert ónæði af þeim sem eru í kringum þig. Drengirnir mínir fóru í gönguferð og skoðuðu sig um á fimmtudag en tóku því rólega í gær og slöppuðu af til að reyna að venjast tímanum endanlega og ná úr sér flugþreytunni. Við erum komin með ýmsar upplýsingar um sumarskóla og fleira fyrir litla krakka og meðal annars fótboltaskóla og verður farið í að skoða það um helgina og sjá hvort hann Máni minn geti ekki byrjað í einhverju skemmtilegu í næstu viku (sundnámskeiði, fótbolta, klifri eða einhverju öðru).











1 ummæli:

Ragnar Guðmundsson sagði...

Hæ hæ Kanadafarar,

Rosalega er gaman að lesa ferðasöguna ykkar og sjá myndir. Veit að ykkur á eftir að líða mjög vel hér.

Kveðja frá Toronto.
Raggi