Þá er loksins vetri að linna og vorið að koma til okkar hérna í Álaborginni. Sól er farinn að sjást á lofti, rigning farin að minnka, þvottur kominn út á snúru, búið að slökkva á helmingi ofnanna í húsinu, blómin að gægjast upp úr moldinni og börnin farin á stjá úti.
Ég er nú búin að taka fram hjólið aftur almennilega og er farin að hjóla daglega í skólann. Við Máni hjólum í sameiningu á mínu hjóli, þar sem hann situr aftan á og veitir móður sinni andlegan stuðning. Í gær tók ég svo aftur fram hjólreiða/hlaupa-vagninn og festi hann á hjólið. Fór með strákana mína út á róló og þar hittum við fullt af kátum krökkum sem Mánalingur lék sér með. Mummi var hálfþreyttur eftir daginn (enda var hann úti næstum allan daginn að renna sér á maganum niður rennibrautina í vöggustofunni og sýndi mömmu sinni rosalega stoltur hversu klár hann var) sat bara hjá mömmu sinni og maulaði kex. Þegar heim kom fórum við í blómaleit og fundum í sameiningu öll blóm sem komin eru upp úr moldinni, öll trén sem byrjuð eru að bruma og fundum líka fugla í stóru trjánum. Það var ofsalega gaman og hressandi að sjá svona vorið birtast. Með batnandi veðri fer ég líkast til að taka fram línuskautana aftur, enda er það svo skemmtilegur ferðamáti og fljótlegt að fara í skólann á línuskautum (þó hjólið sé nú fljótlegt líka, þá gefa línuskautarnir meiri hreyfingu). En ef ég á ætla mér að fara af stað á línuskautana, þá verður stóri prinsinn að eignast nýtt hjól, þar sem hjólið hans er orðið alltof lítið fyrir hann svo hann getur ekki hjólað alla leiðina í leikskólann á því. Hver veit nema næsta helgi beri eitthvað gott í þeim málefnum :o)
Smá myndasena frá vorinu,
yfir og út úr sumrinu í Álaborg
1 ummæli:
Mikið að gaman að heyra um vorilminn í loftinu hjá ykkur, mér finnst ennþá bara vera vetur og slabb hér og væri alveg til í að það færi að koma betra veður. Það er nú bara 2 eða 3 vikur síðan það stóð -11°C á hitamælinum í bílnum hjá mér... :( og um helgina þurftum við að moka snjóinn af tröppunum fyrir framan hjólageymsluna svo öskukallarnir gætu tæmt tunnurnar.
Hafið það gott.
Kveðja Andrea og strákarnir.
Skrifa ummæli