02 mars 2009

Loksins febrúarfréttir

Jæja, þá er litla fjölskyldan hér á Blákelduveginum loksins að komast upp úr holunni og jafna sig á vinnuævintýri undanfarinna vikna.
Það má með sanni segja að við höfum verið upptekin í febrúarmánuði, en þetta hefur verið einn annasamasti mánuður hjá okkur hjónum sem ég hef upplifað. Þó svo að margir myndu kalla mig vinnualka og mér finnist sjálfri afskaplega gaman af því að vinna og gera vel, þá verð ég að viðurkenna að ég vona innilega að við munum ekki upplifa margar svona vikur eins og febrúarmánuður var. Í lokin vorum við bæði búin að ofkeira okkur svo svakalega að við gátum varla hreyft legg né lið og ég þakka bara guði fyrir að tengdó keypti sér miða í september (fyrir krísu) og kom til okkar í lok mánaðarins og sá um börnin og heimilið á meðan við gátum hvorki opnað augun né hreyft munninn.
En svo ég segi ykkur nú aðeins frá ævintýrum mánaðarins :o)

Byrjun mánaðarins fór í skipulagningu fyrir komandi mælingar á nýjum háspennustreng sem verið er að leggja hér í DK. Þetta er fyrsti strengur sinnar tegundar í heiminum og margir með mikinn áhuga á mælingunum, svo eins gott að undirbúningurinn væri góður þar sem ekki er mögulegt að endurtaka ef einhver mistök eru gerð. Vinnutíminn var frá 8 á morgnana til 4 á daginn þegar ég sótti strákana og svo frá 7 á kvöldin (drengirnir snemma í háttinn) til 2 á nóttunni, sumsé 15 tíma vinnudagar hvern einasta dag (líka um helgar) frá 1. febrúar til 11 febrúar. Á sama tíma var Jói í skólanum frá 8-4 og notaði seinni partinn og kvöldin til að læra fyrir próf sem hann fór í í síðustu viku.

Frá 11-15 febrúar skildi ég svo Jóa og strákana eina eftir heima og hélt af stað í mælingarnar (dauðþreytt og óútsofin eftir 15 tíma vinnudaga vikurnar þar á undan). Fyrsta daginn var frost og kalt. Litlar -12 gráður og vindur. FREKAR mikið kalt. Ég var í ullarnærfötum, buxum, síðerma bol, flíspeysu, úlpu, þrennum sokkapörum og kraftgallanum utanyfir (já yfir úlpunni líka). Þetta dugði ekki til, því eftir þennan fyrsta dag var ég orðin fárveik og komin með kvef og hita og verk niður í lungu. Enda stóð ég kyrr allan daginn og stillti sveiflusjár og las af mælingar. hver vinnudagur þessa daga hófst kl. 6:30 með morgunmat á flottasta hóteli sem hægt var að hugsa sér (þvílíkur kastali, 5 stjörnu hótel). Svo var brunað á mælistaðinn (150km í burtu). Þar var svo unnið til ca. 14:00 þegar við vorum að sálast úr hungri, tekin 20mín pása í hádegismat á bensínstöðinni og svo unnið til miðnættis og borðað á bensínstöðinni á leiðinni heim. Sofnað um 2-2:30 að nóttu og vaknað aftur kl. 6 til að hefja næsta dag. Svona leið þetta þar sem ég var með hita, kvef og niðri í lungunum (er enn ekki alveg búin að ná mér enda varla verið tími til hvíldar síðan í byrjun febrúar). Á meðan ég þrælaði daginn út og inn, þá var Jóhann aleinn með tvo stráka sem söknuðu mömmu sinnar og reyndi að læra fyrir próf eins og hann gat. Svo hans dagur var álíka langur og minn, þar sem ekki gafst tími í neitt annað en skóla, umsjá barna og prófalestur fram á nótt.
Ég kom heim þreytt og dauðuppgefin á afmælisdaginn og lá í rúminu sem best ég gat, en Jóhann þurfti að nýta þá 2 daga sem ég var heima til að læra fyrir prófið sitt og var því í skólanum alla helgina á meðan ég lá í rúminu og reyndi að hugsa um prinsana mína. Sunnudagurinn fór reyndar í undirbúningsvinnu, þar sem ég fór af stað aftur snemma á þriðjudagsmorgninum til að hefja næstu mælingar. Þá var ég enn með hita og mjög mikinn hósta, en þar sem þetta var eina tækifærið til að gera þessar mælingar þá var ekkert annað en að bíta bara á jaxlinn, gleypa í sig panódíl og halda af stað.

Næsta vinnusena var nákvæmlega eins og sú fyrri, borðað lítið sem ekkert, unnið eins og þræll langt fram eftir nóttu og vaknað fyrir allar aldir. Sama var uppi á tengnum heima í Álaborg, þar sem styttist óðfluga í prófið hans Jóa og hann sat við lærdóminn öllum mögulegu lausu stundum (sem þó ekki voru margar nema helst á nóttunni). Nú var hann líka sjálfur orðinn lasinn af öllu þrælahaldinu, svo ekki var neitt betra lífið þar. Loks á föstudagskvöldinu klukkan 2:30 hélt ég inn á hótelherbergi og lagði mig eftir miklar annir og erfiðisvinnu og lagði svo af stað til Álaborgar klukkan 8 um morguninn, þar sem ég átti að mæta í afmælisveislu með fjölskyldunni stuttu eftir hádegið. Þreytt, sárlasin og óútsofin fórum við í afmæli og skemmtum okkur konunglega með góðum vinum. Stungum svo snemma af úr veislunni til þess að sækja tengdamömmu sem var komin í 4 daga heimsókn. Við reyndum eftir bestu getu að ganga frá því versta á heimilinu, en við erum ekki vön að láta sjást í drasl, ryk eða skýt heima hjá okkur, en vegna MIKILLA anna þá hafði ekki einu sinni gefist tími til að hugsa um heimilið því prinsarnir gengu fyrir og einhversstaðar urðum við að setja mörkin svo við fengjum að minnsta kosti 3-4 tíma svefn að nóttunni. Tengdó kom sá og sigraði og við lögðumst sárlasin í rúmið. Gerðum okkur reyndar smá glaðan dag á sunnudagskvöldinu þar sem við skruppum saman hjónakornin út að borða á Hereford og spjölluðum saman, enda ekki hist næstum allan mánuðinn og þá þegar kominn 22. febrúar. Nú var Jóhann loksins búinn í prófinu sínu (og stóð sig að sjálfsögðu vel þrátt fyrir erfiðar læriaðstæður) og ég var í kúrs mánudag, þriðjudag og miðvikudag en vann EKKERT eftir klukkan 16 á daginn. Naut þess að hafa tengdó til að hjálpa okkur og vera með prinsunum mínum þegar ég kom heim úr skólanum. Fimmtudagskvöldið sofnaði ég svo klukkan 19 og föstudagskvöldið um 20 og svaf þá loks úr mér megnið af veikindunum. Nýliðin helgi fór loks í afslöppun, spjallerí (og smá fyllerí) á laugardagskvöldið ásamt góðri nautasteik, unaðslegri súkkulaðisælu og frábærum vinum.

Svo nú er loks lífið hjá okkur að komast í réttan farveg og fastar skorður, eða þar til um helgina þar sem ég mun vera í mælingum (aftur) alla næstu helgi. Sú vinna verður svipuð og í febrúarmælingunum en svo kemur frí frá 8. mars alveg til 23. mars þegar næsta mælilota hefst. Í apríl er svo stefnan tekin á Portúgal þar sem ég mun halda smá fyrirlestur um mæliniðurstöðurnar hjá mér og njóta lífsins í Lissbon (allavega yfir helgina) og reyna að slaka aðeins á fyrir páskana, sem munu fara í rólegheit með fjölskyldunni. Þá verður mælitörnum loks lokið og munu mælingarnar ekki verða fleiri í öllu mínu doktorsnámi, þar sem ég á rétt rúmlega 1 ár eftir og þarf að nýta þann tíma í að vinna mína raunverulegu vinnu og leysa vandamálin :o)

Læt nokkrar skemmtilegar myndir fylgja með að gamni.
Knús og kossar frá þessum uppteknu í Álaborginni


Já það voru MÍNUS TÓLF gráður


Mælihópurinn (við vorum reyndar bara tvö í mælisetti númer 2)

Hótelið sem ég gisti á


Hótelherbergið var bara geggjað


Þetta er uppgerður sveitakastali inni í skógi með vatn og dádýr og ég veit ekki hvað. Ætla að taka Jóa þangað einhverntíman þegar við erum með barnapíur í landinu


Sturtan er inni í sívalingnum og er þvílíkt stór og þægileg. Risa sturtuhaus og mikill kraftur á vatninu, útvarp inni í sturtunni og ljósið er með hreyfiskynjara




Þetta lítur ekki út fyrir að vera neitt sérstaklega mikið, en hverja svona uppsettningu tekur ca. klukkutíma að gera, enda er hver strengur ca. 30-40 kg (bara endinn á strengnum)


Hver kapalendi er frekar stór

Þreytt, lasin og á fullu að vinna

Frosnir strengir í morgunsárið

Farið að líða á kvöldið og við langt frá því að hætta



Ofsalega fallegt veður þrátt fyrir mikinn kulda (það var snjóstormur daginn eftir)


Köld mælitæki



Kom heim í 2 daga stopp og reyndi hvað ég gat, sárlasin og þreytt, að sinna litlu mömmuþyrstu prinsunum mínum sem áttu að finna sem minnst fyrir vinnumánuði foreldranna.



Prinsarnir voru að vonum glaðir að sjá mömmu sína þessa 2 stuttu daga á milli langferðanna, þar sem móðirin var ekki í símasambandi nema rétt í ca 10 mín fyrst fyrir kl. 7 á morgnana og svo rétt aðeins til að segja góða nótt við húsbóndann um 2 leitið á nóttunni.




Komin á ströndina í næstu mælilotu. Það var GEGGJAÐ fjör að keyra á ströndinni í fjórhjóladrifnum jeppa og reyna að festa ekki bílinn með nokkur hundruð kílóa búnað í skottinu. Nema nótt númer 2, þá var þoka og svartamyrkur (enda hvergi ljós á miðri ströndinni) svo þegar ég var að keyra, þá sá ég ekki hvar sjórinn var og ekki hvar ég átti að beygja til að komast af ströndinni. Ég sá ca. 2 metra af sandinum og reyndi að keyra eftir minni og eftir einhverjum bílförum þar til mér fannst ég vera búin að keyra ca. nógu lengi svo ég beygði af og var heppin að hitta á rétta afkeyrslu. Hef sjaldan verið jafn hrædd í bíl.





Þessi spennugjafi vegur fáein 91 kg og það tók miklar verkfræðipælingar til að koma honum upp úr djúpri strengjaholunni og upp í bílinn í öllum sandinum á miðri ströndinni. Við bjuggum til sleða úr loki af stórum viðarkassa, klæddum spennugjafann í tvo svarta plastpoka, festum reipi við lokið og drógum spennugjafann upp brekkuna og að bílnum. Vógum svo salt með annað viðarlok og náðum að selflytja spennugjafann upp í skottið á jeppanum. Eftir að hafa náð þessum spennugjafa inn í bílinn tókum við okkur matarpásu og sátum í hálftíma, gjörsamlega uppgefin.



Orðin frekar föl af þreytu og veikindum en samt ánægð með vinnuna og sérstaklega ánægð með niðurstöður mælinganna :o)

Þetta var tækifæri sem gefst bara einu sinni á ævinni

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Segi þetta nú bara enn og aftur: Voðalega er ég vel giftur :D

Nafnlaus sagði...

Bara að kasta á kveðju til ykkar í snjónum, frá okkur sem höfum ekkert svo mikið af snjó, en þess meira af skuldum, þingmönnum sem eru í sandkassaleik á þingi, og gömlum útrásarvíkingum sem eru fluttir erlendis með fjölskyldur sínar , og þeir tóku jú peninginn með sér. Knús og kossar